Körfubolti

Stórleikur Durant dugði Golden State ekki til

Kristinn Páll Teitsson skrifar
LeBron og Curry í kvöld.
LeBron og Curry í kvöld. Vísir/getty
Kevin Durant átti sannkallaðan stórleik í fyrsta leik sínum gegn Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í kvöld en þrátt fyrir það fögnuðu Cleveland-menn sigri á heimavelli 109-108.

Var þetta í fyrsta sinn sem liðin mættust frá því að Cleveland vann NBA-meistaratitilinn í leik sjö í Oakland síðasta vor. Hafa liðin mæst í úrslitum tvö ár í röð.

Golden State var með frumkvæðið framan af og leiddi eftir alla fyrstu þrjá leikhlutana en undir lok fjórða leikhluta reyndust taugar heimamanna sterkari.

Cleveland leiddi aðeins í 41 sekúndu í leiknum en náði forskotinu þegar leikurinn var að klárast og hélt það út.

LeBron James var stigahæstur í liði Cleveland með 31 stig ásamt því að taka 13 fráköst en LeBron, Kevin Love og Kyrie Irving voru með 76 af 109 stigum liðsins.

Í liði Golden State var það Durant sem fór fyrir liðinu með 36 stig og 15 fráköst en hann lauk leiknum án þess að tapa boltanum.

Besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö ár, Steph Curry, náði sér ekki á strik en hann hitti úr tveimur af sjö þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Derrick Rose horfir á eftir boltanum í kvöld.Visir/getty
Í fyrri leik dagsins hafði Boston Celtics betur í Madison Squere Garden gegn New York Knicks 119-114.

Góður annar leikhluti gerði það að verkum að Boston leiddi með tíu stigum í hálfleik en New York vann þrjá leikhluta af fjórum.

Isaiah Thomas var stigahæsti maður Boston með 27 stig en Carmelo Anthony var atkvæðamestur í lið heimamanna með 29 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×