Um hátíðlega athöfn er að ræða og mun þingsetningarathöfn fara fram í Alþingishúsinu og í Dómkirkjunni.
Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn munu ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu þar sem mun fara fram guðsþjónusta.
Að henni lokinni munu þessir fulltrúar þjóðarinnar ásamt öðrum gestum halda aftur til þinghússins þar sem forseti Íslands mun setja Alþingi, 146. löggjafarþing. Að því loknu verður hlutað til um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarp þá kynnt.
Oftast þegar aðrir gestir mæta á athöfnina er um að ræða maka þingmanna og þeirra embættismanna sem viðstaddir eru.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins upplýsir hinsvegar um það á Twitter síðu sinni að hún ætli sér ekki að feta troðnar slóðir í gestavali á þingsetningunni á morgun.
Í stað þess að taka með sér maka, ætlar hún að mæta með ömmu sína upp á arminn.
Á morgun er þingsetning. Þingmenn koma með maka. Ég kem með ömmu. Hún er rugl spennt.
— Áslaug Arna (@aslaugarna) December 5, 2016