Ein fjölmennasta leitaraðgerð Landsbjargar frá upphafi fór fram um helgina þegar 450 björgunarsveitarmenn, frá nær öllum landshornum, leituðu Friðriks Rúnars Garðarssonar sem skilaði sér ekki til byggða eftir rjúpnaveiði á Einarsstöðum á Héraði á föstudagskvöld. Friðrik fannst heill á húfi í gærmorgunn. Álíka mannmargar leitir hafa allar spannað lengra leitartímabil.
„Það bættist um metri af snjó við á meðan við vorum að leita. Landið var erfitt yfirferðar sökum þess auk þess að mikið var um bratta, kjarr og kletta,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, formaður svæðisstjórnar á Austurlandi. Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð á Egilstöðum fyrir leitarmenn en þar gistu á annað hundrað manns.
„Það var strax tekin ákvörðun um að hefja fjölmenna leit og sífellt bætt í til að tryggja á svæðinu væri óþreytt fólk að leita,“ segir Þorsteinn Gunnarsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Meðan það er von þá leitum við og menn voru ekki vonlitlir á að hann finndist á lífi.“
Friðrik var vel útbúinn að öðru leiti en því að hann skorti fjarksiptatæki til að láta vita af sér. Hann gróf sig í fönn í tvær nætur. Með honum í för var Labrador hundur en þeir héldu hita á hvor öðrum í mesta kuldanum.
„Þetta var allur tilfinningaskalinn,“ segir Garðar Sigurvaldason faðir Friðriks Rúnars. Garðar var í Reykjavík þegar hann fékk fréttir af leitinni á föstudegi en flaug austur morguninn eftir. „Maður var agalega kvíðinn, listarlaus og ómögulegur. Hugur manns flakkaði frá fullkominni björgun yfir í það að maður myndi ekki sjá hann aftur.“
Garðar var í stjórnstöðinni á Egilsstöðum þegar fréttin um fund sonar hans barst þangað.
„Maður hafði ímyndað sér hræðilega hluti og gríðarlega ógnvekjandi verkefni framundan. Sem betur fer snerist það í eintóma hamingju. Ég nánast „flikk flakkaði“ afturábak, öskraði og veinaði,“ segir Garðar.
Það sem snart Garðar mest var að vinir sonar hans flykktust á Egilsstaði. Menn komu frá Dalvík, Akureyri, Selfossi, Vestmannaeyjum, Reykjavík að ógleymdum þyrluskíðamönnum úr Skíðadal. „Það var áberandi hve samstaðan var ofboðslega mikil og allir lögðust á eitt að veita andlegan stuðning.“
Markmið fararinnar var að veiða rjúpu og það tókst. „Hann veiddi eina rjúpu sem hann notaði sem kodda í báðum snjóbyrgjunum,“ segir Garðar að lokum.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
