Körfubolti

NBA-leikmaður þurfti að hlaupa á götum New York til að ná leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marshall Plumlee.
Marshall Plumlee. Vísir/Getty
Marshall Plumlee gleymir ekki gærdeginum svo glatt enda dagurinn þegar hann mætti móður og másandi í upphitun fyrir leik New York Knicks liðsins á móti Atlanta Hawks.

Umferðin í New York er ekkert lamb að leika sér við og NBA-miðherjinn Marshall Plumlee þurfti heldur betur að kynnast því í gær.

Joakim Noah er aðalmiðherji New York Knicks en stuttu fyrir leik kom í ljós að hann gat ekki spilað leikinn vegna veikinda. Knicks þurfti því skyndilega á stórum manni að halda.

Marshall Plumlee var með liði New York í D-deildinni og gat því hlaupið í skarðið. Vandamálið var bara að koma honum inn á Manhattan í tíma fyrir leikinn.

Plumlee var staddur í White Plains í New York fylki þar sem Westchester Knicks liðið spilar leiki sína í D-deildinni. Hann fékk heldur ekki símtalið fyrr en tveimur tímum fyrir leikinn.

Plumlee tók lestina en var á síðustu stundu. Hann hoppaði inn í næsta leigubíl en það ætti vanalega að vera tíu mínútna akstur frá lestarstöðinni og til Madison Square Garden.

Plumlee átti að hafa borgað leigubílstjóranum fyrir að fara yfir á rauðu en á endanum festist leigubílinn í umferðarteppu. Plumlee varð því að hoppa út úr bílnum og hlaupa um götur New York til að þess að ná leiknum. Plumlee er 213 sentímetrar á hæð og það fór því örugglega ekki framhjá neinum þegar hann kom á hlaupum í átt að Madison Square Garden.

Þegar á hólminn var komið þá fékk Plumlee þó aðeins að spila fimm mínútur í leiknum. Á þessum fimm mínútum tók hann eitt frákast. New York Knicks vann hinsvegar leikinn og hefur nú unnið fjóra leiki í röð í Madison Square Garden.

Marshall Plumlee.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×