Eins og alþjóð veit vann Donald Trump óvæntan sigur í kosningunum vestanhafs, eitthvað sem margir töldu óhugsandi.
„If I were to run, I’d run as a Republican. They are the dumbest group of voters in the country. They believe anything on Fox News. I could lie and they’d still eat it up. I bet my numbers would be terrific.“
Þessi ummæli, þar sem Trump á að hafa sagt fyrir átján árum að kjósendur repúblikana séu heimskustu kjósendur í Bandaríkjunum, hafa verið í mikilli dreifingu á Facebook undanfarnar vikur en þau eru eignuð Donald Trump, úr viðtali í People Magazine árið 1998. Fyrir utan þá staðreynd að umrætt viðtal er uppspuni, Trump sagði aldrei þessi orð.

Um gott dæmi er að ræða sem lýsir því hvernig falskar staðreyndir og fréttir geta flotið um á Facebook, og reyndar öðrum samfélagsmiðlum líka, án þess að þau séu ritskoðuð á einn eða annan hátt. Hefur Facebook verið sakað um að sundra fólki frekar en að sameina sem er einmitt það sem Facebook segir standa fyrir, að sameina heiminn.
„Fólk hefur slitið vinskap og skorið á fjölskyldutengsl vegna þess af því að umræðan er svo óvæginn,“ segir Claire Waddle, sérfræðingur hjá Tow Center for Digital Journalism. Vandamálið sé að Facebook sé orðið að fréttaveitu sem sé án nokkurrar ritskoðunar eða viðmiða.
Þannig komist hlutir, á borð við fyrrnefnd ummæli Trump, í gríðarlega mikla dreifingu án þess að hún sé stöðvuð á nokkurn hátt, eða leiðrétt.
Segir fólk ekki lifa í bubblu
Zuckerberg segir mikla einföldun að ætla að fólk hafi aðeins greitt atkvæði sitt undir áhrifum falskra frétta á Facebook. Þá neitar hann því sömuleiðis að algóritmi Facebook geri það að verkum að í auknum mæli sjái fólk ekki skoðanir sem séu andsnúnar sínum eigin. Að fólk lifi í bubblu ef svo má að orði komast.
Vandamálið sé það að fólk líki ekki við eða taki þátt í umræðum þegar öndverðar skoðanir eru á dagskrá. Því minni áhuga sem fólk sýni öndverðum skoðunum því sjaldnar birtist þær fyrir augum notandans á Facebook.
„Okkar markmið og hlutverk er að hjálpa fólki að sjá efni sem það hefur mestan áhuga á og skiptir það mestu máli.“