Vinkonurnar Laufey Guðmundsdóttir og Guðrún Valdimarsdóttir á Eyrarbakka sem báðar ert orðnar 96 ára kunna að njóta. Þær hafa verið saman á dvalarheimilinu Sólvöllum í þrjú ár og gera nánast allt saman. Hekl og prjónaskapur á hug þeirra allan þessa dagana. Magnús Hlynur Hreiðarsson heimsótti vinkonurnar í vikunni.
„Hver prjónar fyrir sig og kannski hún prjónar totusokk og vettling fyrir mig og ég dæmi hennar verk og segi hvað er fallegra og hvað er betra.“ segir Guðrún
„Við segjum alveg satt og rétt og svo segi ég: Guðrún mín þú ferð með ljóð fyrir mig í staðinn.“ segir Laufey og heldur áfram að prjóna vettling.
Guðún varð svo auðvitað við þessari bón.
„Þegar leiði á hug manns leitar
þá léttu á hjartans öng.
Leitaðu ljúfra vina
og lyftu þér upp með söng.“
Kveður Guðrún við ánægjulegar undirtektir Laufeyjar.
Talið berst að forseta Íslands og þær stöllur segjast afar ánægðar með þennan nýja forseta vor. „Svo á hann alveg bráðmyndalega konu frá Kanada.“ segir Laufey en þeim líst ekkert á nýjan forseta Bandaríkjanna.
Báðar segjast þær vera mjög þakklátar fyrir þá góðu heilsu sem þær hafa. Af því tilefni tóku þær lagið saman eins og þær gera reyndar svo oft.
96 ára vinkonum á Eyrarbakka líst ekkert á Donald Trump
Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar