Þingfararkaup hækkaði daginn eftir kosningar um 44 prósent og er nú 1,1 milljón króna á mánuði. Ofan á það fá allir þingmenn greiddan svokallaðan starfskostnað sem er 90.636 krónur á mánuði. Einnig fær hver einasti ferðamaður greiddan kostnað sem kallast ferðakostnaður í kjördæmum sem er 83.852 krónur. Þessar greiðslur eru samkvæmt ákvæðum um þingfararkostnað og eru skattfrjálsar.
Það sem vekur athygli er að forsætisnefnd þingsins ákveður sjálf hversu háar upphæðir þetta eru. Í lögum um þingfararkostnaðinn segir í 17. grein að þessar greiðslur séu undanþegnar skatti.

Í 7. gr laganna um þingfararkaup og þingfararkostnað segir að þingmaður fái þessar mánaðarlegu fjárhæðir til greiðslu kostnaðar og einnig greiðslur vegna ferða á milli heimilis og Reykjavíkur. Einnig segir í sömu grein að endurgreiða skuli alþingismanni kostnað við aðrar ferðir er hann þarf að fara innanlands í tengslum við störf sín, svo og gisti- og dvalarkostnað í þeim ferðum.

Alþingi greiðir þingmönnum einnig fyrir akstur á eigin bifreið. Til að mynda greiddi þingið 51 milljón króna árið 2014 til 28 þingmanna þar sem átján þeirra fengu meira en eina milljón króna skattfrjálst í sinn vasa. Árið 2015 greiddi þingið 38,5 milljónir króna vegna aksturs þingmanna á eigin bifreiðum. Þingmenn þurfa ekki að sýna fram á kostnað vegna akstursins.
Brynhildur Pétursdóttir, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, lagði fram þingmál þess efnis á síðasta þingi að upplýsingar um kostnað þingmanna verði gerðar opinberar. „Það er mjög mikilvægt að launagreiðslur þingmanna, hvaða nafni sem þær nefnast, séu ekki sveipaðar leyndarhjúpi. Í Bretlandi eru þessar upplýsingar allar uppi á borði og var það fyrirmynd sem ég horfði til. Á sama tíma og fjármálaráðuneytið vinnur að því að allir reikningar hins opinbera verði opnaðir almenningi ættu þingmenn að ríða á vaðið og sýna gott fordæmi. Slíkt yrði líka til að auka traust á Alþingi.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu