Þrátt fyrir að Snorri Steinn Guðjónsson og Alexander Petersson eru búnir að tilkynna að landsliðsferli þeirra er lokið og þeir hafi klæðst bláu treyjunni í síðasta sinn tók enginn af nýju nöfnunum í handboltalandsliðinu treyjunúmerin þeirra.
Snorri Steinn spilaði númer tíu fyrir landsliðið í vel rúman áratug og Alexander í treyju númer fimmtán. Í staðinn fyrir að taka þeirra númer fóru nýju strákarnir í ný númer sem sum hafa ekki sést áður.
Sjá einnig:Geir valdi Grétar Ara og Ómar Inga í hópinn fyrir leikinn í kvöld
Línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson verður númer 21 í leiknum gegn Tékklandi í kvöld, hornamaðurinn Theodór Sigubjörnsson fékk treyju númer 29 og hægri skyttan Ómar Ingi Magnússon verður númer 30.
Vignir Svavarsson og Róbert Gunnarsson voru ekki valdir að þessu sinni en ekki er útilokað að þeir verði með landsliðinu í framtíðinni. Vignir er treyju númer tvö hjá landsliðinu og Róbert númer 18 en eðlilega er enginn í þeirra treyjum að þessu sinni.
Treyjunúmerin hafa hækkað mikið á síðustu árum en á HM á Spáni árið 2013 voru aðeins þrír í treyjum með hærra númer en 18 hjá Róberti. Það voru Stefán Rafn Sigurmannsson (22), Ólafur Gústafsson (24), Fannar Þór Friðgeirsson (27) og Kári Kristján Kristjánsson (46).
Í leiknum í kvöld verða sjö leikmenn með númer 20 eða hærra en nýliðinn í markinu, Grétar Ari Guðjónsson, verður í treyju númer 20.
