Viðskipti innlent

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði mestu en VG með mestan hagnað

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn á mestar eignir en Píratar þær minnstu.
Sjálfstæðisflokkurinn á mestar eignir en Píratar þær minnstu. Vísir/Eyþór
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 7,7 milljónum á síðasta ári, mest af þeim sex stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, Vinstri grænir voru með hæstan hagnað, eða 22,9 milljónir. Þetta kemur fram í ársreikningum flokkanna.

Þeir sex stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa skilað útdrátti úr ársreikningi til Ríkisendurskoðunar, utan VG sem hefur birt ársreikning sinn á heimasíðu sinni.

Þrír af flokkunum, Píratar, Vinstri-grænir og Björt framtíð, fengu engin framlög frá lögaðilum á síðasta ári.

Rekstrartekjur VG námu 54,5 milljónum króna árið 2015 og stóðu næstum í stað milli ára. Rekstrargjöld námu 30,8 milljónum króna. Afkoma ársins batnaði um rúmar fjórar milljónir milli ára Eignir VG námu 22,6 milljónum króna í árslok, samanborið við 11,2 milljónir árið áður. Skuldir námu 7,2 milljónum króna, en eigið fé 15,4 milljónum króna

Sjálfstæðisflokkurinn á 800 milljónir

Sjálfstæðisflokkurinn var með tekjur upp á 230 milljónir króna á síðasta ári og drógust þeir eilítið saman milli ára. Framlög lögaðila námu 19,3 milljónum króna og drógust saman um níu milljónir milli ára. Rekstrargjöld námu 200 milljónum, samanborið við 268 milljónir árið 2014. Tap Sjálfstæðisflokksins var töluvert minna árið 2015 en 2014. Eignir Sjálfstæðisflokksins námu 792 milljónum króna í árslok 2015, samanborið við 767 milljónir í árslok 2014. Skuldir námu samtals 440 milljónum en eigið fé 352 milljónum.

Samylkingin hagnaðist um 21,4 milljón króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um tæplega 20 milljónir milli ára. Tekjur námu samtals 95,5 milljónum króna, og drógust örlítið saman milli ára. Framlög lögaðila námu 4,9 milljónum króna á árinu 2015. Rekstrargjöld námu 68,7 milljónum króna. Eignir Samfylkingarinnar námu 173 milljónum króna í árslok, samanborið við 166 milljónir árið áður. Eigið fé nam 66 milljónum en skuldir námu 107 milljónum.

Framsóknarflokkurinn hagnaðist um 19,3 milljónir á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 12 milljónir milli ára. Tekjur námu 126 milljónum króna, þar af framlög lögaðila 10,8 milljónum króna. Rekstrargjöld námu 91 milljón króna og drógust saman um 17 milljónir milli ára. Eignir í árslok námu 180 milljónum og drógust saman um tæpar 20 milljónir milli ára. Eigið fé var neikvætt um 45 milljónir en skuldir námu 225 milljónum króna.

Píratar með lægstu skuldir

Píratar högnuðust um 12,8 milljónir árið 2015 og jókst hagnaðurinn milli ára. Tekjur námu 21,8 millljónum króna og rekstrargjöld 9,1 milljón króna. Eignir námu 10,9 milljónum króna í árslok, samanborið við 15,4 milljónir árið áður. Eigið fé nam 22,9 milljónum króna og skuldir 237 þúsund krónum.

Björt Framtíð hagnaðist um 17,7 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 10 milljón króna hagnað árið áður. Tekjur námu 40,8 milljónum króna og rekstrargjöld 22,9 milljónum króna. Eignir námu 14,4 milljónum króna í árslok. Eigið fé nam 12,4 milljónum en skuldir 1,9 milljón króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×