Stjórn Framsóknarfélags Árborgar hefur skorað á Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformann flokksins, að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins á flokksþingi flokksins sem framundan er.
Stjórn félagsins samþykkti áskorunina á fundi sínum á föstudaginn. Þetta kemur fram á vef Sunnlenska. Er Framsóknarfélag Árborgar fjórða Framsóknarfélagið til þess að skora á Sigurð Inga að bjóða sig fram til formanns flokksins en áður hafði Framsóknarfélag Austur-Húnavatnssýslu, Framsóknarmenn í Borgarfirði og Mýrum og Framsóknarfélags Reykjanesbæjar gert slíkt hið sama.
Mikið hefur verið rætt um mögulegt formannsframboð Sigurðar Inga en í almennum umræðum á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Akureyri um síðustu helgi lýsti hann því yfir hann gæti ekki boðið sig fram til varaformennsku að óbreyttri stjórn flokksins á flokksþinginu sem fram fer 1.-2. október.
Sjálfur gerir Sigmundur Davíð ekki ráð fyrir því að Sigurður Ingi bjóði sig fram gegn honum en í gær hlaut formaðurinn afar góða kosningu í efsta sæti listans í Norðausturkjördæmi. Talið er víst að það hafi styrkt stöðu hans fyrir flokksþingið.
Nokkuð er þó þrýst á Sigurð Inga að bjóða sig fram líkt og áskoranir Framsóknarfélaganna bera merki um. Samkvæmt heimildum fréttastofu skoruðu í hinir ýmsu Framsóknarmenn, bæði þingmenn og flokksmenn, á Sigurð Inga í formannsframboð á haustfundi miðstjórnarinnar um síðustu helgi.
Fjórða Framsóknarfélagið skorar á Sigurð Inga

Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð á ekki von á fleiri mótframboðum
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, reiknar ekki með því að fleiri framboð berist gegn honum í embætti formanns flokksins á flokksþingi.

Segir Sigurð Inga hafa fengið reiðilestur frá Sigmundi Davíð á miðstjórnarfundi
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins lýsti því í ræðu í almennum umræðum á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Akureyri í gær, að hann gæti ekki boðið sig fram til varaformennsku að óbreyttri stjórn flokksins á flokksþingi hans sem ákveðið var í gær að fram færi dagana 1. til 2. október næstkomandi.

Yfirburðasigur formannsins í Norðausturkjördæmi
"Það eru auðvitað aldrei allir sammála um neinn í stjórnmálum og það hafa aldrei allir verið sammála um mig"