Unnur Brá Konráðsdóttir fór ekki fram á að vera færð ofar á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi eftir að hafa hafnað í 5. sæti í prófkjöri flokksins á dögunum. Hún var aftur á móti færð upp í 4. sætið í gær þegar kjördæmisráð flokksins í kjördæminu gekk frá endanlegum framboðslista. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafði áður hafnað í 4. sæti, en þáði ekki sætið.
„Ég var mikill talsmaður þess að farið var í prófkjör þannig að þá verður maður að sætta sig við það sem maður ber úr býtum,“ sagði Unnur um niðurstöðu prófkjörsins í samtali við Fréttablaðið í gær, en hún vildi ekki tjá sig um niðurstöðuna fyrr en kjördæmisráðið væri búið að koma saman.
Hún segist vitaskuld hafa viljað sjá betri niðurstöðu fyrir sig í prófkjörinu, en bendir á að þeir þrír frambjóðendur sem eru fyrir ofan hana hafi fengið afgerandi kosningu. „Ég var því ekki að biðja um að farið væri að krukka í listanum fyrir mig.“
Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Vildi sjá betri niðurstöðu

Tengdar fréttir

Gengið frá framboðslistanum í dag
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fundar á Selfossi klukkan þrjú í dag.

Páll segir listann í Suðurkjördæmi vænlegan til árangurs
„Við getum gengið sameinuð og sterk með þennan lista í þessa kosningabaráttu,“ segir Páll Magnússon.


Unnur Brá bíður með að tjá sig um prófkjörið
Þrír karlmenn, Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, hrepptu þrjú efstu sætin.