Innlent

Á annað hundrað þúsund manns á Menningarnótt

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Myndin er gömul en sem fyrr var flugeldasýningin einn af hátindum hátíðarinnar.
Myndin er gömul en sem fyrr var flugeldasýningin einn af hátindum hátíðarinnar. Vísir/Vilhelm
Talið er að á um annað hundrað þúsund manns hafi skemmt sér í miðborg Reykjavíkur í gær en aldrei fyrr hafa jafn margir mætt á Menningarnótt á 21 árs sögu hátíðarinnar.

Fjöldanum var dreift með því að víkka út hátíðarsvæðið sem í þetta skiptið náði alla leið út á Granda. Einnig hjálpaði það að koma í veg fyrir of mikil þrengsli á einu svæði að hafa tvö stór svið, eitt í Hljómskálagarðinum og annað við Arnarhól. Á því fyrrnefnda var dagskrá frá morgni til kvölds.

Í allt voru um 300 fjölbreyttir viðburðir á dagskrá Menningarnætur en fjölda margir aðrir viðburðir voru skipulagðir og framkvæmdir af einstaklingum utan dagskrá. Gestir miðbæjarins máttu sjá karlakóra syngjandi á götum úti, hljómsveitir í öðrum hverjum garði og ýmislegt skemmtilegt fyrir yngstu kynslóðina.

Lögregla segir aðsóknina hafa verið jafna og þétta frá hádegi og fram eftir kvöldi.

Áshildur Bragadóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.
Einstaklega góð stemning

Sem fyrr, lauk Menningarnótt með flugeldasýningu undir stjórn Hjálparsveitar Skáta sem hófst rétt fyrir miðnætti. Lögregla segir að umferð frá miðborginni eftir hana hafa gengið greiðlega.

Áshildur Bragadóttur forstöðukona Höfuðborgarstofu sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu eftir að flugeldasýningu lauk;

„Mig langar fyrir hönd stjórnar Menningarnætur að þakka öllum gestum hátíðarinnar, viðburðarhöldurum, rekstraraðilum, íbúum í miðborginni, lögreglu, björgunarsveitum, slökkviliði, öryggisaðilum og Strætó  innilega fyrir einstaklega vel heppnaða Menningarnótt. Mörg hundruð manns lögðu hönd á plóg til að gera hátíðina sem glæsilegasta og það tókst svo sannarlega. Það var einstaklega góð stemning í miðborg Reykjavíkur þar sem allir lögðust á eitt við að gera daginn sem ánægjulegastan. Á annað hundrað þúsund manns naut þeirrar fjölbreyttu dagskrár sem var í boði, samgöngurnar gengu vel og allir voru sér og sínum til sóma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×