Körfubolti

NBA-stjarna hefur fengið fullt af morðhótunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enes Kanter í leik með Oklahoma City Thunder.
Enes Kanter í leik með Oklahoma City Thunder. Vísir/Getty
Enes Kanter, leikmaður Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfubolta, sefur eflaust ekki rólega þessa dagana en atburðirnir í heimalandi hans, Tyrklandi, hafa haft mikil áhrif á hans líf í Bandaríkjunum.

Enes Kanter sagði frá því á Twitter að hann hefur verið að fá morðhótanir stanslaust síðan á föstudaginn þegar misheppnuð valdaránstilraun fór fram í heimalandi hans.

Hinn 24 ára gamli Kanter, sýndi skjámyndir af hótunum á Twitter og skrifaði undir á tyrknesku. „Morðhótanirnar halda áfram að missa marks" og „Bænir eru ekki kyrrar á sama stað."

Enes Kanter gagnrýndi stjórnvöld í Tyrklandi eftir hryðjuverkaárás í Ankara í mars en 37 létust í sprengjunni og meira en hundrað slösuðust.  Kanter tjáði meðal annars óánægju sína með það að stjórnvöld lokuðu á aðgengi að samfélagsmiðlum og settu takmarkanir á umfjöllun fjölmiðla í landinu.

Enes Kanter sagði frá því í júní 2015 að hann hefði ekki verið valinn í tyrkneska landsliðið vegna pólitískra skoðana sinna. Landsliðsþjálfarinn Ergin Ataman fullvissaði fjölmiðlamenn þó um það ákvörðun hans að velja ekki Kanter hafi ekki verið pólitísk.

Enes Kanter er nýorðinn 24 ára gamall og var að klára sitt fimmta tímabil í NBA-deildinni. Hann var með 12,7 stig og 8,1 frákast að meðaltali á 21.0 mínútu með Oklahoma City Thunder á síðasta tímabili. Það er búist við því að hann fái enn stærra hlutverk á næsta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×