„Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaðan hafi lofað að hleypa áherslumálum ríkisstjórnarinnar í gegn, sem var eitt skilyrðið, þvert á móti. Ef ekki næst að klára, þá verður ekki kosið,“ skrifar Gunnar Bragi og vill meina að ef stjórnarandstaðan eða aðrir haldi öðru fram núna sé það í besta falli einbeittur vilji til að segja ósatt.
„Í versta falli lygi.“
Þessi skrif Gunnars Braga eru í ætt við það sem sem þingmenn Framsóknar héldu fram í samtali við Vísi fyrr í dag. Vigdís Hauksdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson sögðu að ekki tilefni til kosninga ef ekki næst að klára verkefni ríkisstjórnarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að óhjákvæmilegt væri að bæta við þingfundardögum í haust til að klára öll mál ríkisstjórnarinnar. Samkomulag um að flýta kosningum hafi verið viðleitni til að ná saman við stjórnarandstöðuna en vantrauststillaga hennar hefði haft áhrif á þau áform.