Skoðun

Kjósum rétt

Halla Tómasdóttir skrifar
Kæru Íslendingar

Nú göngum við til kosninga og veljum næsta forseta lýðveldisins. Að kosningum loknum er mikilvægt að sátt og sameining ríki um þann einstakling sem verður fyrir valinu.

Því vil ég hvetja kjósendur til að nýta rétt sinn og kynna sér vel það sem þeir frambjóðendur sem í boði eru hafa fram að færa.

Það skiptir máli að ákvörðunin sé tekin á upplýstan hátt, þannig fáum við góðan forseta. Forseti getur gert heilmikið gagn fyrir land og þjóð. Forseti slær tóninn og er fyrirmynd, getur leitt samtal um jafnrétti, menntun og náttúruvernd, er fyrirmynd sem sýnir virðingu og heiðarleika í verki. Forseti getur skapað tækifæri fyrir Íslendinga, opnað dyr og stutt við íþróttafólk, listamenn, vísindamenn, tæknifólk og sprotafyrirtæki. Ég mun vera duglegur forseti sem þjóðin getur í senn nýtt til góðra verka og verið stolt af.

Úrslitin eru ekki ráðin, þitt atkvæði skiptir máli. Ég hvet þig til að kjósa þann frambjóðanda sem þú telur besta kostinn.

Það er engin ástæða til að velja þann næstbesta til þess að koma í veg fyrir að sá sem þú vilt ekki komist að. Valið stendur að mörgu leyti milli fortíðar, þess að standa í stað, eða að horfa til framtíðar.

Ég heyri að fleiri og fleiri ætla að kjósa framtíðina og vilja forseta sem mun gera gagn. Það skiptir máli að taka þátt því þannig getum við haft áhrif. Ég vel framtíðina og býð þjóðinni að fylgja mér í þeirri vegferð.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×