Lífið

Norðmaður í EM-gleðivímu: Situr uppi með íslenskt nafn næstu tvo mánuði

Atli Ísleifsson skrifar
Garðar hefur fulla trú á sínum mönnum.
Garðar hefur fulla trú á sínum mönnum. Mynd/Facebook/Vilhelm
Þrítugur Norðmaður situr nú uppi með „íslenskt“ nafn á Facebook næstu sextíu dagana eftir að hafa tekið upp íslenska útgáfu af nafni sínu í gleðivímu í kjölfar sigurs Íslands á Englandi á EM á mánudaginn.

Gard Lehne Borch Michalsen fylgdist náið með leiknum og líkt og flestir Norðmenn studdi hann strákana okkar.

Í mikilli geðshræringu

Garðar var skiljanlega í mikilli geðshræringu eftir að dómarinn flautaði til leiksloka og ákvað því að „íslenska“ nafn sitt á Facebook-síðunni með því að breyta Gard í Gardar, bæta við -ur við annað nafnið og „sen“ í „son“.

Nýja nafnið, Gardar Borchur Michalsson, fékk að lifa nóttina en þegar hann hugðist breyta nafninu aftur til baka stóð hann frammi fyrir skilaboðum frá Facebook um að hann gæti ekki gert það aftur fyrr en að sextíu dögum liðnum. Garðar situr því uppi með íslenska nafnið sitt út sumarið.

Íslenska liðið líkt og það norska fyrir 20 árum

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá raunum Garðars sem segir að hann hafi fengið fjölmörg skot frá vinum og vandamönnum vegna málsins.

Garðar viðurkennir að hann hafi ekki fylgst náið með íslenska landsliðinu síðustu árin en útskýrir af hverju hann hefur hrifist svo með íslenska liðinu.

„Það snýst ekki bara um að Norðmenn hafi sögulega tengingu við Ísland, heldur er það líka skemmtilegt að sjá lið sem berst svo mikið, er svona vel samhæft og gefur allt í þetta. Íslenska liðið er á ýmsan hátt eins og það norska fyrir tuttugu árum síðan – lið sem samanstendur af leikmönnum úr meðalsterkum deildum álfunnar og það eru ekki margar stórstjörnur,“ segir Garðar í samtali við VG.

Haustfrí til Íslands?

Garðar segist nú hafa lagt undir hundrað norskar krónur á að Ísland vinni EM í Frakklandi og má hann eiga von á 15 þúsund norskum krónum, gangi það eftir. „Ef þetta fer svona þá fer ég í haustfrí til Íslands.“

Garðar hefur raunar áður komið til Íslands, en eins og sést á Facebook-síðu hans kom hann til landsins árið 2010 þar sem hann heimsótti meðal annars Djúpavog.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.