Körfubolti

Keypti tvo miða á sjöunda leikinn á 6,2 milljónir stykkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James treður boltanum í körfuna í síðasta leik.
LeBron James treður boltanum í körfuna í síðasta leik. Vísir/Getty
Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers mætast annað kvöld í hreinum úrslitaleik um NBA-meistaratitilinn í körfubolta en leikurinn fer fram á heimavelli Golden State í Oracle höllinni í Oakland.

Það þarf ekki að koma mörgum á óvart að áhuginn sé mikill á þessum leik í Bandaríkjunum en sumir eru svo áhugasamir að þeir eru tilbúnir að borga himinháar upphæðir fyrir miða á leikinn.

Miðasöluvefurinn StubHub sagði ESPN frá því að einn efnaður körfuboltaáhugamaður hafi sett nýtt met þegar hann keypti tvo miða á þennan leik á 49.500 dollara eða 6,2 milljónir stykkið.  Leikurinn er 48 mínútur þannig að hver mínúta á leikklukkunni kostar umræddan körfuboltaáhugamann 128 þúsund krónur.

Gamla metið var 37 þúsund dollarar fyrir miða á fjórða leik Los Angeles Lakers og Boston Celtics í lokaúrslitunum 2008. Það þarf ekkert að taka það fram að öll þessi sæti eru á besta stað á gólfinu.

StubHub seldi einnig miða á bardaga Floyd Mayweather og Manny Pacquiao fyrir 35 þúsund dollara en allar þær 4,4 milljónir hefðu ekki dugað til að hreppa umrædda miða á úrslitaleik Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers.

Golden State Warriors komst í 2-0 og 3-1 í einvíginu en Cleveland Cavaliers hefur unnið tvo síðustu leiki þar sem LeBron James hefur verið stórkostlegur.

Sjöundi leikurinn hefst á miðnætti annað kvöld og verður að sjálfsögðu sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×