Körfubolti

Durant og Westbrook frábærir er Oklahoma jarðaði meistarana | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Allt í einu virðist ekkert svo öruggt að liðið sem hefur verið kallað það besta í sögunni í NBA verði ekki meistari annað árið í röð.

Golden State Warriors, sem vann 73 leiki í deildarkeppninni, er 2-1 undir í úrslitum vesturdeildarinnar gegn Oklahoma City Thunder en OKC tók meistarana og flengdi þá á heimavelli sínum í nótt, 133-105.

Oklahoma City, með Kevin Durant og Russell Westbrook í miklu stuði, var mest 41 stigi yfir í leiknum. Þeir hittu báðir úr ríflega helmingi sinna skota í leiknum en þetta er í fyrsta sinn í úrslitakeppninni á þessu tímabili sem báðir skjóta yfir 50 prósent utan að velli.

Saman skoruðu þeir félagarnir 63 stig. Kevin Durant var stigahæstur með 33 stig og átta stoðsendingar en hann hitti úr tíu af fimmtán skotum sínum utan að velli og öllum tólf vítaskotunum. Westbrook skoraði 30 stig, tók átta fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Steph Curry var stigahæstur Golden State með 24 stig en hann hitti aðeins úr þremur þristum úr ellefum tilraunum. Klay Thompson kom næstur með átján stig en þeir voru þeir einu sem skoruðu meira en tíu stig fyrir meistarana.

Golden State er nú með bakið uppvið vegg og þarf helst að vinna næsta leik sem fram fer í Oklahoma City áður en einvígið heldur aftur til Oakland þar sem fimmti leikurinn fer fram.

Í spilaranum hér að ofan má sjá þá Durant og Westbrook fara á kostum en hér að neðan má sjá fimm flottustu tilþrif leiksins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×