Eygló Ósk Gústafsdóttir, íþróttamaður ársins 2015, komst örugglega í úrslit í 200 metra baksundi, sinni sterkustu grein, á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug London í kvöld.
Eygló synti í seinni undanúrslitariðlinum og kom önnur í mark á eftir járnfrúnni Katinku Hoszzu frá Ungverjalandi.
Hún synti á 2:10,87 mínútum en Íslandsmet hennar er 2:09,04 mínútur. Eygló bætti sig frá því í morgun en hún var einnig með fimmta besta tímann í undanrásum þegar hún synti á 2:11,30 mínútum.
Eygló syndir til úrslita á morgun og á fínan möguleika á verðlaunum.
