Keith Emerson, hljómborðsleikari Emerson, Lake and Palmer, lést í gær á heimili sínu í Santa Monica. Emerson var 71 árs þegar hann lést. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebook-síðu sveitarinnar. Í yfirlýsingunni er þess óskað að fjölskylda hans fái að syrgja í næði.
Emerson er af mörgum talinn einn albesti hljómborðsleikari proggrokk tímabilsins.
„Ég er afar hryggur eftir að hafa frétt af andláti vinar míns og bróður í tónlistinni, Keith Emerson. Keith var góð sál og ást hans fyrir tónlist og frammistaða hans á sviði verður lengi í minnum höfð,“ skrifar Carl Palmer, sem var með honum í ELP, á Facebook-síðu sína.
