Skoðun

Ég styð Vigfús Bjarna Albertsson til forseta

Tolli skrifar
Þegar komið var til mín fyrir nokkru og ég spurður hvort ég væri til í að skora á Vigfús að bjóða sig fram til forseta Íslands svaraði ég játandi án þess að þurfa að hugsa mig lengi um.

Það sem mér finnst Vigfús hafa umfram aðra sem stigið hafa fram til þessa hlutverks er að hann getur staðið undir því að vera maður sáttar og sameiningar og það er einmitt það sem að við höfum verið að bíða eftir í all langan tíma, að finna einhvern farveg fyrir þjóðina sem gæti heilað hana eftir áföll liðinna ára, því það er öllum ljóst að það ríkir mikið ójafnvægi í þjóðarsálinni og stöðugt er alið á gremju og ótta og margir búa til í haginn fyrir sig og sína með því að ala á þessum sorta.

Að við fengjum forseta sem er jafnmikill umhverfissinni gagnvart náttúru landsins og landslagi hugans og er læs á hvort tveggja er mikið happ fyrir okkur fólkið í landinu.

Ég get ekki sagt að ég sé gjörkunnugur Vigfúsi en hann heimsótti mig á sjúkrabeðið þegar ég var að koma úr krabbameinsaðgerðinni í fyrra sumar, ég hef setið námskeið sem hann hefur verið leiðbeinandi á og svo höfum við rætt málin yfir góðum málsverð og mín reynsla er sú að þarna finn ég mann sem er uppfullur af velvild og kærleik gagnvart sínu samferðafólki, greindur og víðsýnn er hann og fínn húmoristi.

Hann er sem hann talar, maður orða sinna og traustur og treysti ég honum til að takast á við hvaða verkefni sem er, félagsleg sem pólitísk á hvaða vettvangi sem er og þegar ég segi pólitísk þá er ég ekki að vísa til þess að við Vigfús séum reglubræður í einhverju pólitísku ritúali, satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvar Vigfús er í pólitík.

Það sem ristir dýpra en öll póltík í fari hans er að hann er maður kærleikans og sá sem hefur kærleika og velvild sem nálina í sínum pólitíska áttavita villist ekki, svo ég er tilbúin að styðja hann alla leið.

Ekki er Vigfús maður einsamall en hann er umvafinn fallegri fjölskyldu þar sem hann er giftur henni Valdísi Ösp Ívarsdóttur og eiga þau saman þrjú yndisleg börn. Ef eitthvað er þá finnst mér ég geta sagt að ég þekki Valdísi betur en Vigfús og finnst mér hún hafa slíka mannkosti að ef hún hefði gefið kost á sér til embættis forsetans þá væri erfitt fyrir mig að velja á milli hennar og Vigfúsar en sem betur fer þarf þess ekki því ef allt gengur upp á verður þessi fjölskylda fyrir okkur á Bessastöðum næstu fjögur árin.

Megi svo verða.

Ást og friður.

Tolli




Skoðun

Sjá meira


×