Körfubolti

Steve Kerr mættur | Þjálfar Golden State liðið í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr og Stephen Curry.
Steve Kerr og Stephen Curry. Vísir/Getty
Steve Kerr mun stýra NBA-meisturum Golden State Warriors í fyrsta sinn á tímabilinu í kvöld þegar liðið tekur á móti Indiana Pacers í Oracle Arena í Oakland.

Steve Kerr missti af 43 fyrstu leikjum Golden State liðsins eftir að hafa þurft að jafna sig eftir bakaðgerð sem hann gekkst undir í sumar.

Luke Walton, aðstoðarmaður Golden State, hefur stýrt liðinu í fjarveru Steve Kerr og liðið vann 39 af þessum 43 leikjum undir hans stjórn. Furðulegar reglur í NBA sjá til þess að allir sigrarnir eru skráðir á Kerr.

Steve Kerr vann NBA-titilinn á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í NBA-deildinni og tekur við liðinu nú þegar það hefur sett stefnuna á það að bæta met Chicago Bulls frá 1995-96 þegar Michael Jordan og félagar unnu 72 leiki af 82.

Golden State Warriors getur skrifað söguna strax í fyrsta leik Steve Kerr á tímabilinu því vinni liðið leikinn fagnar það sigri í 38. heimaleiknum í röð.

Boston Celtics vann 38 heimaleiki í röð tímabilið 1985 til 1986 en tvö lið hafa unnið fleiri heimaleiki í röð, Orlando Magic 1995-96 (40) og Chicago Bulls 1995-96 (44).

Golden State Warriors hefur farið illa með tvö topplið í Austurdeildinni á síðustu dögum eftir að hafa tapað óvænt fyrir Detroit Pistons fyrir viku sína. Golden State vann 132-98 sigur á Cleveland og 125-94 sigur á Chicago Bulls í síðustu tveimur leikjum sínum undir stjórn Luke Walton.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×