Handbolti

Svíar gerðu Guðmundi grikk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Getty
Danmörk, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, tapaði sínu fyrsta stigi á EM í Póllandi er liðið gerði jafntefli, 28-28, við Svía í kvöld. Hægri hornamaðurinn Mattias Zachrisson tryggði Svíum annað stigið er hann skoraði síðasta mark leiksins þegar átta sekúndur voru til leiksloka.

Jesper Nöddesbo reyndi að taka skot frá miðju á lokasekúndum leiksins en það var varið. Danir höfðu verið skrefinu framar allan leikinn og leiddu í hálfleik, 15-13. En Svíar gáfust ekki upp og uppskáru jafntefli.

Zachrisson, Johan Jakobsson og Andreas Nilsson skoruðu allir fimm mörk fyrir Svíþjóð í kvöld en hjá Danmörku var Michael Damgaard markahæstur með sjö mörk. Niklas Landin var ekki upp á sitt besta og varði sjö skot í danska markinu.

Danmörk trónir engu að síður á toppi milliriðils 2 með sjö stig en Danmörk og Spánn koma næst með sex.

Danmörk og Þýskaland eigast við í lokaumferð riðlakeppninnar á morgun og þar dugir Guðmundi jafntefli gegn Degi Sigurðssyni og þýska liðinu til að komast áfram í undanúrslit keppninnar.

Spánverjar mæta Rússum og dugir sigur til að komast áfram, á kostnað annað hvort Danmerkur eða Þýskalands.


Tengdar fréttir

Dujshebaev sá um pabba sinn

Spanverjar eru komnir með sex stig, rétt eins og Danmörk og Þýskaland, í milliriðli 2 á EM í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×