Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að grunur leiki á að maðurinn, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, hafi fengið peningagreiðslur fyrir upplýsingar frá embættinu. Sigríður segist ekki geta staðfest það.
„Það getur legið alls konar hvati að baki svona málum. Það getur hafa átt sér stað þvingun sem enginn veit af. Það er ekkert sannað á hann og þetta mál er enn bara í rannsókn.“

Annar lögreglumaður hefur verið færður til í starfi eftir að grunur vaknaði um leka. Sigríður getur ekki staðfest hvort mál þess lögreglumanns sé einnig í rannsókn hjá Ríkissaksóknara né hvort málin tengist beint.
„Ríkissaksóknari metur hversu sterkar grunsemdir eru og hvort beri að aðhafast,“ segir Sigríður. Ásakanir á hendur þeim lögreglumanni ná yfir nokkurra ára tímabil án þess að ástæða þótti til að vísa málinu til ríkissaksóknara.
Í gær var svo karlmaður, sem ekki starfar hjá lögreglunni, handtekinn í tengslum við málið. Samkvæmt heimildum RÚV hefur sá hlotið dóm fyrir brot á fíkniefnalögum og er um fertugt.

Í tíð Sigríðar hefur verið ráðist í skipulagsaðgerðir innan embættisins.
„Við erum að endurskoða margt hjá okkur og erum meðal annars að endurskipuleggja fíkniefnadeildina. Sú vinna hófst rétt eftir að ég var komin til starfa.“
Sigríður Björk telur að aðgerðir síðustu daga sýni að kerfið virki.
„Málin rata á rétta staði. Við erum með innri endurskoðun sem kemur með skýrslur um einstaka þætti. Síðan er hver yfirmaður með ákveðna eftirlitsskyldu. Traust innan stofnunarinnar skiptir máli um hvort svona mál kemst upp eða ekki.“
Sigríður Björk segir langvarandi umræðu hafa verið um eftirlit með lögreglu og allir yrðu ánægðir ef það yrði aukið.