Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði við blaðamenn eftir fundinn að annar fundur yrði haldinn á sunnudaginn með öllum 28 leiðtogum ríkja Evrópusambandsins, ekki bara Evrusvæðisins. Vonast er til að niðurstaða náist á þeim fundi, sem verður sá síðasti.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði Grikki enn ekki uppfylla þau skilyrði sem hún telur nauðsynleg til að hefja samningaviðræður af alvöru. Hún sagðist enn fremur vonast til þess að hafa nægilega ítarlegar tillögur frá Grikkjum fyrir fimmtudag til að bera undir þýska þingið svo hægt sé að hefja samningaviðræður.
„Ég er andvígur brotthvarfi Grikklands úr Evrusvæðinu en ég get ekki afstýrt því ef gríska ríkisstjórnin fer ekki að óskum okkar,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann sagði framkvæmdastjórnina hafa undirbúið ítarlega áætlun ef af brotthvarfi verður. Juncker gaf Grikkjum frest til föstudagsmorgun til að koma með ítarlegar tillögur.

„Þetta voru langar og strangar viðræður sem sýna hversu alvarlegt ástandið er,“ sagði Merkel og bætti því við að sú þörf að kalla til allra leiðtoga ríkja Evrópusambandsins undirstriki alvarleikann.
„Einungis fimm dagar eru til stefnu til að finna endanlegt samkomulag við Grikki,“ sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins í gær. Hann sagði þetta mikilvægasta augnablik í sögu evrunnar.
Tsipras mun ávarpa Evrópuþingið í dag til að greina nánar frá stöðu mála.
Evklíð Tsakalótos, hinn nýi fjármálaráðherra Grikklands, mætti tómhentur á samningafund við fjármálaráðherra ríkja Evrusvæðisins í Brussel í gær. Talið var að Tsakalótos myndi koma með nýjar tillögur til að létta á skuldabyrgði Grikkja. Giorgos Stathakis, efnahagsmálaráðherra Grikkja, sagði við fréttastofu BBC í fyrradag að tillögurnar miðuðu að þrjátíu prósent skuldaniðurfellingu.