„Það voru fjögur meginþemu sem komu í ljós í rannsókninni sem lýstu reynslu hælisleitenda og búsetu, tækifærum til þátttöku, upplifun valdleysis og framtíðarsýn,“ segir Lilja.

„Biðin reyndist þeim erfiðust,“ segir Lilja. Meðan á bið stendur fá hælisleitendur ekki atvinnuleyfi og segir Lilja að iðjuleysið reynist þeim einnig mjög erfitt.
„Þeir töluðu allir um það að þeir hefðu ekkert að gera. Þeir vildu vinna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þeim fannst þetta taka allt of langan tíma og töluðu um hvað það væri dýrt fyrir íslenskt samfélag að þeir mættu ekki vinna. Þeir reyndu samt að drepa tímann á ýmsan hátt, fóru í sund og voru í tvo til þrjá tíma, fóru í langa göngutúra og elduðu mat sem tók langan tíma að útbúa. En það var ekki iðja sem var þeim mikilvæg, þeir vildu koma að gagni,“ segir hún.
Það er þeim einnig þungbært að hafa ekki stjórn á eigin lífi. „Þeir töluðu um að þetta væri ekkert líf. Þeim fannst tíminn líða frá sér og upplifðu mikið valdleysi. Þeim fannst erfitt að vera þiggjendur á húsnæði, fæði og vasapeninga.“
Hælisleitendurnir áttu einnig erfitt með að hugsa til framtíðar þar sem þeir vissu ekki hvað tæki við og hvort þeir fengju að vera á Íslandi. „Þeir óskuðu sér allir að samlagast íslensku samfélagi. Þeir vildu læra íslensku en höfðu efasemdir um gagnsemi þess ef þeir yrðu sendir úr landi. Einn þeirra sagði við mig að hann ætti sér engan draum núna því hann vissi ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér, 23 ára gamall.“
Niðurstöður rannsóknar Lilju eru í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna á sömu málefnum. Hún segir mikilvægt að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna til að koma í veg fyrir heilsuspillandi áhrif af völdum langrar biðar í óvissu. Einnig þurfi að gefa gaum að búsetuformi og stuðla að tækifærum til þátttöku í iðju við hæfi, meðal annars atvinnu.