Körfubolti

NBA: Jordan stráði salt í sár Mark Cuban og Dirk Nowitzki | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hitnaði aðeins í kolunum hjá DeAndre Jordan og Dirk Nowitzki.
Það hitnaði aðeins í kolunum hjá DeAndre Jordan og Dirk Nowitzki. Vísir/EPA
Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta og fögnuðu lið Los Angeles Clippers, Atlanta Hawks og Memphis Grizzlies sigri í leikjum sínum. Clippers-liðið er búið að vinna báða leiki sína en hin tvö liðin komu til baka eftir tap í fyrsta leik.

Blake Griffin skoraði 26 stig og tók 10 fráköst þegar Los Angeles Clippers vann öruggan 104-88 heimasigur á Dallas Mavericks. Jamal Crawford var með fimmtán stig en augu flestra voru þó á einum manni í liði Los Angeles Clippers.

Miðherjinn DeAndre Jordan var í sumar búinn að ákveða það að yfirgefa Los Angeles Clippers og semja við Dallas Mavericks eða að þar til að hann fékk heimsókn frá liðsfélögum sínum í Clippers sem sannfærðu hann um að hætta við.

Mark Cuban, eigandi Dallas-liðsins, og stjörnuleikmaðurinn Dirk Nowitzki, voru allt annað en ánægðir með ákvörðun DeAndre Jordan sem var mikill örlagavaldur fyrir síðustu tímabilin hjá Nowitzki. Nowitzki lét DeAndre Jordan líka aðeins finna fyrir því í nótt.

DeAndre Jordan var með 6 stig, 15 fráköst og 4 varin skot í leiknum en Dirk Nowitzki skoraði 16 stig fyrir Dallas.

Marc Gasol var með 20 stig og leikstjórnandinn Mike Conley bætti við 13 stigum og 10 stoðsendingum þegar Memphis Grizzlies vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu með því að leggja Indiana Pacers að velli 112-103. Indiana Pacers hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum sem hefur ekki gerst í sex ár.

George Hill skoraði 20 stig fyrir Indiana og þeir Paul George og C.J. Miles voru með 18 stig hvor. Indiana var vel inn í leiknum en Memphis gaf í í lokin og tryggði sér sigurinn með því að vinna síðustu 3:49 mínútur leiksins 18-7.

Jeff Teague fór fyrir liði Atlanta Hawks í fyrsta sigri liðsins á tímabilinu en leikstjórnandinn eldsnöggi var með 23 stig í 112-101 sigri á New York Knicks. Al Horford var með 21 stig fyrir Atlanta sem tapaði frekar óvænt fyrir Detroit Pistons í fyrsta leik. Kyle Korver skoraði 15 stig og Paul Millsap var með 11 stig og 11 fráköst.

Carmelo Anthony skoraði 25 stig fyrir New York Knicks en þurfti til þess 27 skot. Robin Lopez bætti við 18 stigum en New York liðinu tókst ekki að fylgja á eftir sigri á Milwaukee kvöldið áður.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×