David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og íslenskur starfsbróðir hans, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, áttu fyrir skemmstu fund í Alþingishúsinu.
Cameron lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan fimm. Þaðan hélt bílalestin forsætisráðherrans að Iðnó þar sem Cameron var í viðtali við breskan fjölmiðil.
Eftir stuttan fund í Iðnó var ekið að þinghúsinu þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók á móti Cameron. Þegar inn í þinghúsið var komið leiddi Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis um þinghúsið og útskýrði hið sérstæða sætafyrirkomulag Alþingis fyrir breska forsætisráðherranum, þar sem þingmenn draga í sæti.
Að því loknu settust Cameron og Sigmundur niður og voru fyrstu mínútur fundarins opnar blaðamönnum og ljósmyndurum. Þjóðarleiðtogarnir voru hins vegar afar lágróma svo vart mátti greina hvað þeim fór í millum.
Cameron mun að fundi loknum snæða með forsætisráðherrum Norðurlandanna í Þjóðmenningarhúsinu.
Sigmundur og Cameron funduðu í þinghúsinu

Tengdar fréttir

Leiðtogar Norðurlandanna allir í Reykjavík
Þing Norðurlandaráðs sett í Hörpu í dag. Forsætisráðherrar Norðurlandanna sitja fyrir svörum þingfulltrúa. David Cameron kemur til landsins á morgun.