Innlent

Veikindi lögreglumanna: „Menn eru bara að gefast upp á skeytingarleysi stjórnvalda“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Mótmæli lögreglumanna við stjórnarráðið í liðinni viku.
Mótmæli lögreglumanna við stjórnarráðið í liðinni viku. Vísir/Pjetur
Ástæðu þess að fjöldi lögreglumanna var reiðubúinn að fara á svig við lög og taka þátt í samstöðuveikindum í gær má rekja til áratugalangs skeytingarleysis stjórnvalda gagnvart stéttinni. Þetta segir formaður Landssambands lögreglumanna.

Fjölmargir lögreglumenn hringdu sig inn veika í gær. Samstöðupestin náði til flestra umdæma en hafði þó mest áhrif á störf lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem loka þurfti lögreglustöðvum.

Þessar skærur lögreglumanna vöktu hörð viðbrögð innanríkisráðherra, sem sagði aðgerðirnar vera óviðunandi. Áður hafði fjármálaráðuneytið sagt þær vera ólöglegar.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Svikin loforð og skeytingarleysi

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir ástæðu aðgerðanna ekki eingöngu snúast um kjaramál en deila lögreglumanna og ríkisins er í hnút. Hann segir lögreglumenn hafa verið verkfallslausa stétt síðan 1986 og að á þeim tæplega þrjátíu árum hafi stéttin staðið í stappi við ríkið um kjör.

„Við höfum horft upp á hvert svikið loforðið á fætur öðru,“ segir Snorri. „Í kjaramálum, í búnaðarmálum, í mannfjöldamálum og svo framvegis og svo framvegis. Mælirinn er bara einfaldlega orðinn fullur hjá lögreglumönnum.“

Sjá einnig: Segir óraunveruleg veikindi ekki rétta baráttuleið

Opinberar tölur sýni að íslenska lögreglan er fáliðuð á sama tíma og álagið eykst.

„Lögregla á í erfiðleikum með að ná almennilega utan um glæpaflóruna, ef maður getur notað það orð, sem er í landinu. Þannig að menn eru bara að gefast upp á álaginu og skeytingar- og virðingarleysi stjórnvalda í þeirra garð.“

Að sögn Jóhanns Karls Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjóns var kvöldvakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fullmönnuð í gær og hið sama má segja um vaktina í dag. Ekki var hægt að taka á móti öllum kærum í gær og því hvetur Jóhann Karl fólk til að mæta með kærur til lögreglunnar á mánudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×