Reykjavíkurborg mun draga tillögu um að sniðganga vörur frá Ísrael til baka. Dagur B. Eggertsson staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og ætlar að breyta texta tillögunnar á fundi borgarráðs á fimmtudag.
RÚV greindi fyrst frá málinu.
Dagur segir ljóst að undirbúningi hafi verið ábótavant. „Mér finnst standa uppúr að það sé ekki nógu skýrt að við eigum við landtökubyggðirnar en ekki Ísrael sem heild.”
Hann segir að svipað mál hafi komið upp í Kaupmannahöfn og borgarstjórinn þar hafi þurft að árétta að það væri verið að tala um hernumdu svæðin og landtökubyggðirnar.
Ákvörðun Reykjavíkurborgar hefur víða verið harðlega gagnrýnd og hefur meðal annars verið bent á að hún standist ekki lög. Þá hafði Wiesenthal-stofnunin hvatt gyðinga til að ferðast ekki til Íslands.
Hann vísar á bug gagnrýni á að borgin sé að blanda sér í utanríkispólitík, þetta snúist um að leggja mannréttindi til grundvallar í innkaupum og það sé að ryðja sér til rúms að fyrirtæki og borgir og bæir horfi til siðferðissjónarmiða. Það hafi ekki komist til skila og það sé þeim sjálfum að kenna.

