Íslenski boltinn

Gömlu Þórsararnir að keppa um markakóngstitilinn í 3. deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Arnþór
Jóhann Þórhallsson og Orri Freyr Hjaltalín eru jafnaldrar og báðir uppaldir Þórsarar þar sem þeir unnu meðal annars Íslandsmeistaratitil saman í 3. flokki 1996.

Þeir skiptu báðir úr Þór í vetur og fóru í sitthvort 3. deildarliðið. Jóhann Þórhallsson spilar með Völsungi á Húsavík og Orri Freyr Hjaltalín með Magna á Grenivík.

Nú er svo komið að þeir félagar eru eins og er markahæstu leikmenn 3. deildarinnar með sex mörk hvor. Engir leikmenn í deildinni hafa náð því það sem af er tímabilinu.

Jóhann hefur skorað sín mörk í sex leikjum en Orri Freyr í sjö en eru báðir vítaskyttur sinna liða.

Orri Freyr og félagar í Magna eru taplausir í toppsæti deildarinnar en Völsungar eru í 7. sæti. Orri Freyr skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Magna á Völsungi í maí.

Jóhann og Orri Freyr spiluðu saman með Þór í Pepsi-deildinni frá 2013 til 2014 en höfðu þá ekki verið samherjar hjá Þórsliðinu í áratug. Þeir léku þó saman í Grindavík sumarið 2006.

Það er sérstaklega eftirminnilegt þegar þeir félagar skoruðu saman 29 mörk í framlínu Þórsliðins í 1. deildinni 2001 en Þór vann þá deildina og komst upp í úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×