Þar berst einnig stórvinur Gunnars, Conor McGregor, um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt gegn ríkjandi meistara, Jose Aldo.
Eins og greint hefur verið frá var bardagakvöldið í uppnámi eftir að upphaflegur andstæðingur Gunnars, John Hathaway, hætti við vegna meiðsla og vegna þess að Aldo var sagður rifbeinsbrotinn. Síðar kom í ljós að hann er ekki brotinn.
Gunnar mætir Bandaríkjamanninum Brandon Thatch sem er sterkari andstæðingur en Hathaway. Thatch hefur æft stíft að undanförnu og kemur ekki „kaldur“ inn í bardagann þar sem hann átti að berjast hvort sem er sama kvöld.
Gunnar Nelson hefur verið í Las Vegas undanfarnar vikur í stífum æfingabúðum og í gærkvöldi tók hann hressilega á Jóni Viðari Arnþórssyni, formanni Mjölnis og góðum vini sínum, á púðaæfingu.
Gunnar sparkaði og kýldi Jón Viðar sundur og saman og er ekki annað að sjá en okkar maður sé í flottu standi.
Þeir félagarnir njóta lífsins í Vegas og eyða kvöldunum við sundlaugina þar sem Gunnar notar óhefðbundnar aðferðir við að koma sér á flotsængur.
Jón Viðar setti inn stutt myndbönd frá æfingunni í gær á Instagram-síðu sína sem sjá má hér að neðan.