Körfubolti

LeBron James: Ég missi aldrei trúna af því að ég er sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James á blaðamannfundinum í nótt.
LeBron James á blaðamannfundinum í nótt. Vísir/Getty
LeBron James hefur ekki stórar áhyggjur þótt að lið hans Cleveland Cavaliers sé komið 3-2 undir og sé aðeins einum tapleik frá því að missa NBA-meistaratitilinn til Golden State Warriors.

James átti enn einn stórleikinn í nótt en það dugði ekki til þar sem að Golden State Warriors vann fimmta leikinn 104-91.

„Ég missi aldrei trúna af því að ég er besti leikmaðurinn í heiminum," sagði LeBron James sem var með 40 stig, 14 fráköst og 11 stoðsendingar í leiknum í nótt. Þetta var annar tapleikurinn í seríunni þar sem 40 stiga leikur frá LeBron James var ekki nóg.

LeBron James vísaði því til föðurhúsanna að taktíkin hjá Steve Kerr og lærisveinum hans væri að leyfa honum að skora.

„Þeir eru ekki að leyfa mér að skora 40 stig. Ég fór út og náði í þessi 40 stig," sagði LeBron James sem er með 36,6 stig, 12,4 fráköst og 8,8 stoðsendingar að meðaltali í úrslitaeinvíginu.

Cleveland Cavaliers komst í 2-1 í einvíginu en hefur núna tapað tveimur leikjum í röð. Það hefur verið allt annað að sjá lið Golden State Warriors í síðustu leikjum.

„Leikur sex er á okkar heimavelli og við höfum nóg af vopnum í okkar liði til að vinna hann. Við þurfum að passa upp á heimavöllinn okkar og svo komum við aftur til Golden State. Við ætlum að einbeita okkur að þriðjudagskvöldinu fyrst. Við þurfum að verja heimavöllinn okkar eins og við getum og þá fáum við oddaleik," sagði James.

LeBron James varð í nótt fyrsti leikmaðurinn frá 1969 (Jerry West) sem skorar 40 stig samhliða því að ná þrefaldri tvennu. Hér fyrir neðan má sjá myndbönd af Lebron James frá leiknum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×