Margt er óljóst varðandi réttindi þeirra sem fara í fegrunarðaðgerðir en í nýrri meistararitgerð er sjónum beint að viðbrögðum stjórnvalda í PIP brjóstapúðamálinu. Tvö hundruð og fjórar íslenskar konur bíða þess að mál þeirra gegn TÜV Rheinland, sem sá um eftirlit með framleiðslu á PIP brjóstapúðunum, verði tekið fyrir í Frakklandi.
Rúm fjögur ár eru liðin síðan hið svokallaða PIP brjóstapúðamál komst í hámæli eftir að upp komst um að sílikonpúðar frá fyrirtækinu Poly Implant Prothése hefðu verið fylltir með iðnaðarsílikoni sem kynni að vera krabbameinsvaldandi.
Mál íslensku kvennanna verður tekið fyrir í undirrétti í Frakklandi 24. júlí næstkomandi. Þetta er annað málið sem er tekið fyrir en dómur í fyrsta málinu fellur 2. júlí.
Í Morgunblaðinu í dag var fjallað um meistararitgerð Margrétar Erlendsdóttur í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands þar sem kemur fram að mikil óvissa ríkir varðandi réttindi þeirra sem fara í fegrunaraðgerðir. Margrét beindi sjónum sínum að viðbrögðum íslenskra stjórnvalda í brjóstapúðamálinu.
„Það er svo ótal margt í þessu sem að mínu viti er óljóst og loðið um stöðu þessarar þjónustu, ekki síst gagnavart heilbrigðiskerfinu. Mín kannski meginniðurstaða er sú að fegrunaraðgerðir eins og þarna er um að ræða – þarna er verið að breyta útliti fólks en ekki verið að lækna eða meðhöndla sjúkdóm eða endurhæfa. Þegar að svo er þá dreg ég í efa, að þetta sé hægt að kalla heilbrigðisþjónustu, og þar með að þetta veiti þau réttindi, sem fólki er tryggð ef um heilbrigðisþjónustu væri að ræða,“ segir Margrét.
Lögmaður íslensku kvennanna segir margar þeirra hafa hlotið mikinn skaða vegna púðanna.
„Þetta er alveg frá ökkla og upp í eyra. Sumar hafa fundið lítið sem ekkert fyrir þessu upp í að konur hafa orðið mjög veikar. Sílikon hefur lekið um líkamann og annað,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður íslensku kvennana.
Vinnist málið þá munu hópur sérfræðinga skoða mál hverrar konur fyrir sig til þess að ákveða bætur.
„Við gerum ráð fyrir því að við fáum nú þrátt fyrir að dómurinn 2. júlí, sé kannski ekki hundrað prósent fordæmi fyrir íslensku konurnar en þá mun það mál gefa okkur góða vísbendingu um niðurstöðuna. Þannig maður vonar alltaf bara það besta,“ segir Saga.