Körfubolti

Vinnur Golden State sinn fyrsta NBA-titil í 40 ár í nótt?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James þarf að eiga stórleik ætli Cleveland sér að knýja fram sjöunda leikinn.
LeBron James þarf að eiga stórleik ætli Cleveland sér að knýja fram sjöunda leikinn. vísir/getty
Sjötti leikur Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar fer fram á heimavelli Cleveland, Quicken Loans Arena, í nótt.

Staðan í einvíginu er 3-2, Golden State í vil, og með sigri tryggja stríðsmennirnir sér sinn fyrsta meistaratitil í 40 ár, eða frá árinu 1975 þegar Rick Barry var aðalmaðurinn í liðinu.

Cleveland þarf hins vegar á sigri að halda til að jafna metin í einvíginu og knýja fram leik númer sjö í Oakland aðfaranótt laugardags.

Golden State hefur unnið tvo síðustu leikina í einvíginu eftir að Cleveland tók forystuna, 2-1, með sigri í þriðja leik liðanna.

Síðasti leikur liðanna var jafn lengst af og þegar rúmar fimm mínútur voru eftir munaði einu stigi á þeim, 85-84. En Golden State átti magnaðan endasprett með Andre Igoudala og Stephen Curry í broddi fylkingar og vann að lokum 13 stiga sigur, 104-91.

Curry hrökk heldur betur í gang í fimmta leiknum þar sem hann skoraði 37 stig og setti m.a. niður sjö af 13 þriggja stiga skotum sínum. Curry var misjafn í fyrstu fjórum leikjunum og náði sér t.a.m. engan veginn á strik í leik númer tvö þar sem hann var aðeins með 21,7% skotnýtingu.

LeBron James skoraði 40 stig, tók 14 fráköst og gaf 11 stoðsendingar í fimmta leiknum en það dugði ekki til sigurs. James hefur verið magnaður í úrslitunum og boðið upp á einstaka tölfræði; 36,6 stig að meðaltali í leik, 12,4 fráköst og 8,8 stoðsendingar.

Sjötti leikur Cleveland og Golden State hefst klukkan eitt í nótt og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Tómas Þór Þórðarson og Kjartan Atli Kjartansson lýsa leiknum.

NBA

Tengdar fréttir

Kóngarnir af Akron

Körfuboltakapparnir Stephen Curry og LeBron James hafa slegið hvert metið á fætur öðru í úrslitakeppninni en þeir eiga fleira sameiginlegt en að vera að endurskrifa NBA-söguna og vera komnir með liðin sína alla leið í úrslitaleikina um NBA-meistaratitilinn. Golden State Warriors, lið Currys, getur tryggt sér fyrsta titil sinn í 40 ár með sigri á heimavelli Cleveland í sjötta leiknum í kvöld.

Mikilvægi fimmta leiksins er óumdeilt

Það lið sem hefur unnið leik 5 þegar staðan er 2-2 í úrslitaeinvígi hefur unnið titilinn 20 sinnum af 28 skiptum sem þessi staða hefur komið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×