Enski boltinn

Suárez og Chiellini mætast ekki í úrslitaleiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dramatíkin minnkar við þetta.
Dramatíkin minnkar við þetta. vísir/afp
„Vinirnir“ Luis Suárez, sóknarmaður Barcelona, og Giorgio Chiellini, varnarmaður Juventus, mætast ekki í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn í Berlín.

Heimasíða Juventus greinir frá því að Chiellini sé meiddur og getur ekki tekið þátt í úrslitaleiknum, en ítalska liðið er komið í úrslit í fyrsta skipti í tólf ár.

Suárez og Chiellini tókust á síðasta sumar á HM, en Suárez beit þá Ítalann í leik Ítalíu og Úrúgvæ á heimsmeistaramótinu.

Fyrir bitið, sem var það þriðja á ferlinum hjá Suárez, fékk hann fjögurra mánaða bann og missti fyrir vikið af fyrstu vikunum með Börsungum á tímabilinu.

Suárez mun þó væntanlega mæta Patrice Evra, bakverði Juventus, en Úrúgvæin var úrskurðaður í leikbann sem leikmaður Liverpool á Englandi fyrir að beita Frakkann kynþáttaníð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×