Körfubolti

James með þrefalda tvennu þegar Cleveland jafnaði metin | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James fagnaði vel og innilega eftir að sigur Cleveland var í höfn.
LeBron James fagnaði vel og innilega eftir að sigur Cleveland var í höfn. vísir/getty
LeBron James fór á kostum þegar Cleveland Cavaliers jafnaði metin gegn Golden State Warriors í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í nótt.

James, sem er að spila í lokaúrslitum fimmta árið í röð, bauð upp á þrefalda tvennu; 39 stig, 16 fráköst og 11 stoðsendingar, í tveggja stiga sigri Cleveland, 93-95. Þetta var aðeins fjórða tap Golden State á heimavelli í vetur.

Líkt og í fyrsta leiknum, sem Golden State vann, þurfti að framlengja leikinn í nótt. Cleveland leiddi nær allan leikinn og þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir munaði 11 stigum á liðunum, 72-83. En Golden State gafst ekki upp og náði að knýja fram framlengingu.

Stephen Curry, verðmætasti leikmaður tímabilsins, náði sér ekki á strik í nótt en hann hitti aðeins úr fimm af 23 skotum sínum utan að velli og skoraði 19 stig. Hann tapaði boltanum auk þess sex sinnum.

Klay Thompson var stigahæstur í liði Golden State með 34 stig.vísir/getty
Ástralinn Matthew Dellavedova, sem tók sæti hins meidda Kyrie Irving í byrjunarliði Cleveland, reyndist betri en enginn í nótt. Auk þess að spila góða vörn á Curry setti hann niður tvö vítaskot þegar tíu sekúndur voru eftir af framlengingunni og kom Cleveland einu stigi yfir, 93-94.

Í kjölfarið klúðraði Curry enn einu skotinu og Stríðsmennirnir neyddust til að senda James á vítalínuna. Hann setti annað af tveimur vítum niður og kom Cleveland tveimur stigum yfir, 93-95.

Golden State hafði tæpar fimm sekúndur til að jafna leikinn en Curry tapaði boltanum. Fyrsti sigur Cleveland í lokaúrslitum því staðreynd.

James var stigahæstur í liði Cleveland með 39 stig. Rússneski miðherjinn Timofey Mozgov kom næstur með 17 stig, auk þess sem hann tók 11 fráköst. J.R. Smith gerði 13 stig af bekknum og Dellavedova var með níu stig, fimm fráköst og þrjá stolna bolta.

Klay Thompson skoraði mest í liði Golden State, eða 34 stig.

Næsti leikur fer fram á heimavelli Cleveland aðfaranótt miðvikudags og hefst klukkan 01:00.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×