Skoðun

Í dag getum við

Halldór Halldórsson skrifar
Í dag göngum við Reykvíkingar til kosninga. Við gerum upp við kjörtímabilið sem er að líða og ákveðum hvernig við viljum að borginni okkar verði stjórnað næstu fjögur ár.

Það skiptir miklu að við notum kosningaréttinn, því aðeins þannig höfum við áhrif á stjórn borgarinnar og veitum fulltrúum okkar í borgarstjórn nauðsynlegt aðhald. Í kjörklefanum erum við ein, öðrum óháð og öll jöfn. Þess vegna hafa öll atkvæði jöfn áhrif og öll þeirra ráða úrslitum.

Í dag getum við kosið um raunverulegar og nauðsynlegar breytingar á borginni, - það má ekki láta hagsmuni okkar Reykvíkinga reka á reiðanum lengur.

Í dag getum við kosið að endurreisa grunnþjónustuna og stöðva gæluverkefnin.

Í dag getum við kosið að efla þjónustu borgarinnar við börn og unglinga, eldri borgara og ekki síst þá sem standa höllum fæti.

Í dag getum við kosið að auka valfrelsi okkar á öllum sviðum og tryggt að borgaryfirvöld hafi manneskjulegar lausnir og mannlega reisn að leiðarljósi.

Í dag getum við kosið að auka lóðaframboð og laðað fram krafta atvinnulífsins og lægra íbúðaverð, hvort sem er til kaups eða leigu.

Í dag getum við kosið að lækka álögurnar.

Og í dag getum við kosið framfarir í stað stöðnunar.

Það er til mikils að vinna og því skora ég á þig að leggja leið þína á kjörstað og hvetja fjölskyldu og vini til þess að taka þátt í lýðræðishátíðinni með þér. Þannig kjósum við betri framtíð fyrir Reykjavík og okkur sjálf.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×