Handbolti

„Væri frábært að ná fimmta sæti á EM“

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Snorri Steinn lætur vaða á markið í leiknum í gær.
Snorri Steinn lætur vaða á markið í leiknum í gær. Fréttablaðið/Daníel
Snorri Steinn Guðjónsson leikstjórnandi skoraði þrjú mörk fyrir Ísland gegn Dönum í gær en viðurkenndi að við ofurefli hefði verið að etja að þessu sinni.

„Við töpuðum fyrir betra liði. Við getum samt sjálfum okkur um kennt því við fórum illa með mörg góð færi. Við spiluðum ágætlega á köflum en Danirnir voru fljótir að refsa fyrir hver mistök sem við gerðum,“ sagði Snorri Steinn.

Jannick Green átti stórleik í marki Dana en það kom Snorra ekki á óvart.

„Ég þekki hann ágætlega og vissi að hann vildi stimpla sig vel inn fyrst hann fékk tækifærið. Þeir eiga tvo sterka menn í hverri stöðu og þó svo að einhverjir hafi hvílt í leiknum kom það ekki að sök.“

Ísland mætir Póllandi í leik um fimmta sætið á EM klukkan 15.00 á morgun. Snorri telur að leikmenn muni gíra sig upp fyrir þann leik.

„Það voru litlar væntingar gerðar til liðsins fyrir mót en við vorum ákveðnir í að gera vel. Það væri frábært að ná fimmta sæti enda margir að stíga sitt fyrsta skref á stórmóti. Við viljum kveðja á góðan máta og munum gera allt sem við getum til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×