Lögreglan í Los Angeles hefur hafið rannsókn er tengist ásökunum á hendur leikaranum Bill Cosby. Það er vegna ásakana sem Judy Huth hefur borið á leikarann en hún segir hann hafa brotið gegn sér kynferðislega árið 1974 á Playboy-setrinu svokallaða.
Hún lagði fram kæru á hendur honum í byrjun síðustu viku en hann hefur nú gert slíkt hið sama og sakar hana um að hafa reynt að kúga úr sér fé fyrir um tíu árum síðan, alls 250 þúsund Bandaríkjadollara sem jafngildir um 31 milljón íslenskra króna.
Huth er ein fjölmargra kvenna sem sakað hefur Cosby um brot sem þetta. Aðrar segja hann hafa nauðgað þeim, byrlað þeim ólyfjan og áreitt þær kynferðislega. Cosby segir ásakanirnar með öllu tilhæfulausar.