Búið er að grafa yfir fjóra kílómetra eða rúmlega helminginn af göngunum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar en áformað er að þau verði opnuð árið 2017. Norðfirðingar gera sér grein fyrir að göngin valda byltingu sem þeir eru þegar farnir að búa sig undir.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að á Fáskrúðsfirði hafi menn misst ákveðna þjónustu, eins og póstþjónustu, banka og apótek. Þar hafa menn reynt að mæta þessum samdrætti með því að draga fram eigin sérstöðu. Uppbygging franska spítalans og hótelsins séu liður í þessu, að mati Páls Björgvins. Vegna ganganna hafi aðrir greiðari aðgang til Fáskrúðsfjarðar.

Norðfirðingar hafa nú rúm tvö ár til að búa sig undir að missa hugsanlega einhverja starfsemi eða kannski bæta einhverri annarri við. Í Neskaupstað verði að hugsa um hvaða þjónustu sé hægt að bjóða þar til framtíðar, segir Páll Björgvin. „Þannig að þetta virkar í báðar áttir þegar göngin verða opnuð.“