Svona hefst Facebook-færsla Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar sem segir að meint afskipti innanríkisráðherra af lögreglurannsókn, sem beinist að henni sjálfri og pólitískum aðstoðarmönnum sem hún ber beina ábyrgð á, feli í sér misbeitingu opinbers valds og brjóti gegn hæfisreglum stjórnsýsluréttar.
„Eins og það sé ekki nóg hefur umboðsmaður Alþingis í bréfi til ráðherra vísað í 2. mgr. 12. gr. laga um umboðsmann Alþingis, sem segir að ef umboðsmaður verði áskynja stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds geti hann gefið Alþingi sérstaka skýrslu um málið,“ segir Árni og bætir við að hann muni ekki eftir að umboðsmaður hafi áður vísað til þessarar greinar í athugasemdum við embættisfærslur ráðherra.
„Þetta mál er nú komið handan við mörk hinnar pólitísku umræðu og mikilvægt að við treystum réttarkerfinu og opinberum eftirlitsaðilum fyrir réttum framgangi málsins,“ segir Árni.
„Stjórnmálin mega ekki trufla þann framgang, enda ekki um neins konar pólitískan leik að ræða í þessu máli. Við í stjórnarandstöðunni hljótum því að bíða niðurstöðu umboðsmanns. Í millitíðinni er mál ráðherrans í höndum þess meirihluta sem hún styðst við á Alþingi.“
Tæplega tvær vikur eru liðnar síðan Árni Páll sagði að ákæra á hendur aðstoðarmanni innanríkisráðherra, Gísla Frey Valdórssyni, fyrir að leka gögnum um hælisleitanda væri afsagnarsök fyrir ráðherra í öllum lýðræðisríkjum.
„Þetta er ekki einhver embættismaður sem nýtur sérstaka réttinda og skyldna samkvæmt lögum, heldur persónulega handvalinn aðstoðarmaður ráðherra, sem nýtur einungis aðgangs að opinberum gögnum fyrir tilverknað ráðherrans. Það er, held ég megi fullyrða, afsagnarsök fyrir ráðherra í öllum lýðræðisríkjum,“ sagði Árni Páll Árnason á Facebook