Jarðvísindamenn eru nú komnir upp á Bárðarbungu til að koma fyrir fleiri mælitækjum í von um að afla nákvæmari upplýsinga um hræringarnar í eldstöðinni. Þeir vilja koma fyrir fleiri jarðskjálftamælum á Vatnajökli til að geta staðsett dýpi skjálftanna betur og var ákveðið að þyrla Landhelgisgæslunnar færi nú síðdegis með bæði mælitæki og sérfræðinga á vettvang. Áformað var að þyrlan lenti bæði á Bárðarbungu og í Grímsvötnum en ásamt áhöfn eru um borð fimm jarðvísindamenn og fulltrúi almannavarna.

„Langflest af þessum tuttugu gosum sem við þekkjum vel hafa orðið innan við 14 klukkutímum eftir að hrinan brestur á. Þessir 14 tímar eru þegar liðnir," segir Páll í viðtali við Stöð 2.
Hann segir að margar slíkar hrinur hafi hins vegar endað sem kvikuinnskot, sem ekki hafi náð til yfirborðs. „Þetta er farið að líkjast því æ meira, eftir því sem tíminn líður, að þetta sé kvikuinnskot sem ekki nái til yfirborðs." Hann tekur þó fram að ekki sé útilokað að það nái alla leið upp og endi í gosi.
Páll segir atburðarásina minna mjög á upphaf Kröfluelda. Þá hafi komið gangainnskot og kvikuhlaup í nokkur ár áður en raunverulegt eldgos kom upp á yfirborðið. Smágos hafi þó stundum fylgt áður en fyrsta alvörugosið kom fimm árum eftir að atburðarásin byrjaði.
Hann telur jafnvel að menn geti þurft að bíða í mörg ár eftir gosi, eins og raunin varð í Eyjafjallajökli, þar sem það tók átján ár fyrir kvikuna að komast upp á yfirborð. „Mig grunar að þetta geti líka orðið raunin hér í sambandi við Bárðarbungu." segir Páll Einarsson.