Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmir loftárás í grennd við neyðarskýli Sameinuðu þjóðanna á Gasasvæðinu í dag og segir hana glæpsamlega. Tíu manns fórust í árásinni.
Robert Turner, stjóri neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna segir í samtali við AP að loftárásin virtist hafa verið á vegum ísraelska hersins, en Ísraelar hafa enn ekki tjáð sig um málið.
„Ísraelska hernum hefur oft verið gert grein fyrir staðsetningu þessara neyðarskýla,“ segir Turner, en sextán manns fórust í svipaðri árás á neyðarskýli í síðustu viku. „Þeir vita hvar þau eru. Hvernig þetta gerist aftur og aftur veit ég ekki.“

