Skoðun

Eitt loforð eða framtíð Kópavogs

Sverrir Óskarsson skrifar
Í spjalli við íbúa Kópavogs kemur skýrt fram áhersla þeirra á öfluga og sveigjanlega þjónustu en líka væntingar um skynsamlega ráðstöfun á okkar sameiginlegu fjármunum. Þeir segja að bæjarstjórn og bæjarfélagið eigi að vinna markvissar og í meiri sátt við íbúa Kópavogs. Við í Bjartri framtíð höfum nálgast þessar væntingar með því að kynna íbúum lausnir og framtíðarsýn en sleppt einföldum loforðum.

Það er hægt að lofa frítt í sund fyrir aldraða og á hækkun frístundarstyrk fyrir börn en hvar er þessi afmarkaði afsláttur í samhengi við önnur stórútgjöld og álag á fjölskyldur. Við getum líka spurt hvaða stjórnmálaflokkar í Kópavogi hafi í kosningum árið 2010 lofað að hækka leikskólagjöld um 17%, að hækka matargjöld í grunnskólum um 20% og hækka dægradvöl um 25%, sem því miður varð raunin. Hverjir lofuðu þá smá hækkun á íþróttastyrk en skáru á sama tíma niður framlög til íþrótta- og tómstundafélaga um 20%, sem síðan varð til þess að æfingagjöldin hækkuðu.

Það er létt að smella fram einu loforði sem hægt er að afgreiða á einum bæjarstjórnarfundi en erfiðara að kynna framtíðarsýn í fjölbreyttum málefnum íbúa. Björt framtíð hefur þá stefnu að minnka álögur á barnafjölskyldur, ætlar að samþætta betur þjónustu við börn, ætlar að þróa fjölbreyttari húsnæðismöguleika, ætlar að efla atvinnulífið í bænum með meiri samvinnu ólíkra aðila og ætlar að reka bæjarfélagið á skilvirkan hátt. Okkur langar mikið að efla hið faglega innra starf sem fram fer á leikskólum, í grunnskólum og í dægradvölum bæjarins. Við ætlum líka að opna stjórnsýsluna og auka upplýsingagjöf til íbúa um kostnaðarþætti í rekstri bæjarfélagsins, þannig að íbúar fái betri innsýn störf þeirra sem stjórna og meiri áhrif á það hvernig fjármunum bæjarins er varið hverju sinni.

Björt framtíð hefur talað um þjónustufyrirtækið Kópavog og þannig lagt áherslu á að okkar hlutverk sé að eiga samráð við íbúa og þróa öfluga þjónustu. Það þarf að breyta viðhorfum, auka fagmennsku, veita meiri fjármunum í innra starfið og breyta áherslum svo íbúar fái betri þjónustu. Við vitum að þetta gerist ekki með einu loforði heldur með staðfestu og framtíðarsýn í gegnum þúsund ákvarðanir og örugglega tíu þúsund samtöl við Kópavogsbúa.

Með skýra stefnu og jákvæðni getum við byggt betri velferð fyrir Kópavogsbúa og tryggt að þeir séu virkir þátttakendur. Við í Bjartri framtíð erum tilbúin í verkefnið. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×