Innlent

Gunnar Gíslason. "Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari kosninganna"

Sveinn Arnarsson skrifar
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna, á Akureyri.
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna, á Akureyri.
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna á Akureyri, var ánægður með fyrstu tölur á Akureyri. Samkvæmt þeim nær flokkurinn að ná inn þremur mönnum og er stærsti flokkurinn með um 25% fylgi.

„Við erum sátt við þessar tölur, þetta er í samræmi við það sem við höfum haldið, að við ættum að vera með um 25 - 27 prósent. Ég ætla að trúa því að við munum frekar bæta í þegar líður á nóttina,“ sagði Gunnar Gíslason.

Sjálfstæðismenn og L-listinn eru einu flokkarnir sem geta myndað tveggja flokka meirihluta. Gunnar Gíslason segir að allir möguleikar séu í stöðunni. „Við ætlum okkur að vera í meirihluta næstu fjögur ár, við værum ekki í þessu upp á annað. Við munum bara fara í það að skoða hvaða fletir eru í stöðunni og verðum bara vakandi í því.“ 

Um mögulegar meirihlutaviðræður segir Gunnar: „Ég geri bara ráð fyrir því að heyra í öllum oddvitum og sjá hvaða möguleikar eru í stöðunni. Þetta er hins vegar mjög viðkvæmt eins og fyrstu tölur gefa til kynna, lítið þarf út af að bregða til að Framsókn fái tvo fulltrúa á kostnað þriðja manns L-listans og þá er staðan hreinlega allt önnur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×