Skoðun

Talar Dagur gegn betri vitund?

Greta Björg Egilsdóttir skrifar
Það er alveg hreint með ólíkindum hvað meirihlutanum í Reykjavík tekst að slá ryki í augu borgarbúa með því að halda fram að ekkert verði hróflað við Reykjavíkurflugvelli á meðan hin títt nefnda Rögnunefnd er að störfum. Það sem aftur á móti er ekki haft eins hátt um er að Deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll var samþykkt í borgarstjórn þann 1. apríl síðastliðinn þar sem meðal annars er gert ráð fyrir því að leggja neyðarbrautina (NA/SV) niður.

Á vinnustaðafundi hjá símafélaginu Nova á föstudaginn síðastliðinn kom upp spurning um lokun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Dagur B. Eggertsson fullyrti að flugmálayfirvöld teldu það ásættanlegt að loka brautinni. Er Dagur að vísa í bréf Björns Óla Haukssonar forstjóra Isavía til innanríkisráðuneytisins?  Það mat er byggt á forsendum sem stangast á við gildandi reglugerð um flugvelli. Í fyrsta lagi þar sem Reykjavíkurflugvöllur og Keflavíkurflugvöllur eru teknir sem einn lendingarstaður með 37 km loftlínu á milli og í öðru lagi er reiknaður nothæfistuðull miðað við 25 hnúta hliðarvind allt árið. Þær vélar sem eru mest notaðar við sjúkraflug hér á landi eru af gerðinni Beechcraft King Air B200 og er þeirra viðmiðunarflugtaksvegalengd undir 1200 m sem þýðir að miða á við10 hnúta hliðarvind en ekki 25 hnúta, til viðmiðunar má þó nota 13 hnúta hliðarvind.

Í öllum  svörum borgarinnar til hagsmunaaðila flugvallarins og annarra er vitnað í þetta mat þó svo að Isavía hafi séð sig tilknúnna til þess að skrifa bréf og leiðrétta þær staðreyndarvillur sem fram koma í svörum skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Það gerðu þeir einfaldlega vegna þess að þeim var hótað stjórnsýslukæru. Þetta ætti Degi B. Eggertsyni að vera fullkomlega kunnugt um.

Það er erfitt að eiga í heiðarlegri kosningabaráttu þegar oddviti Samfylkingarinnar hallar réttu máli, eða í besta falli rangtúlkar þær upplýsingar sem fyrir liggja. Staðreyndin er sú að Reykjavíkurflugvöllur án neyðarbrautarinnar uppfyllir ekki lágmarksviðmið um nothæfisstuðul samkvæmt reglugerð um flugvelli nr. 464/2007, en sú reglugerð er innleiðing á viðauka 14 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO. Það verður að teljast afar hæpið að flugmálayfirvöld á Íslandi væru tilbúin til að lýsa því yfir að þau teldu ásættanlegt að skerða Reykjavíkurflugvöll svo mikið að hann uppfyllir ekki lengur lágmarksviðmið reglugerða.

Ég skora því hér með á Dag B. Eggertsson að leggja fram gögn sem styðja þessa fullyrðingu hans.




Skoðun

Sjá meira


×