Skoðun

Vinstri græn gegn íslensku láglaunastefnunni

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Eitt af stóru málunum hjá VG á Akureyri á næsta kjörtímabili verður að hækka lægstu laun starfsmanna bæjarins og fyrir það höfum við verið sökuð um popúlisma, lýðskrum og að skapa óraunhæfar væntingar. En hvers vegna er þetta svona óraunhæft?

Fyrr á síðustu öld voru flokkar ekki feimnir við að fylkja sér á bak við verkamenn og láglaunastéttir og krefjast betri kjara. Það var ekki litið svo á að launakjör á almennum markaði kæmi stjórnmálamönnum ekki við. Í nútímapólitík virðist þessi áhersla hins vegar algerlega ómöguleg.

Ég sat í sveitarstjórn síðustu tvö kjörtímabil og þá fékk ég oft að heyra að hitt og annað væri ekki hægt. Þegar á reyndi var þetta þó flest mögulegt þvert á álit ýmissa lögfræðinga. Það eina sem þurfti var vilji til að hugsa út fyrir boxið og styrkur til að halda málum áfram þrátt fyrir mótbyr.

Síðustu árin hafa vinnuveitendur og stjórnvöld verið óþreytandi á að benda á hætturnar sem fylgja því að íslendingar geti framfleytt sér og fjölskyldu sinni á sómasamlegan hátt. Allir kannast við verðbólgudrauginn sem virðist aðeins og eingöngu vakna upp ef lægst launuðu stéttirnar fá hækkun. Þeir lægst launuðu bera einnig ábyrgð á afkomu fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga umfram aðra.

Munum að kjarasamningar sveitarfélaganna eru lágmarkssamningar, hverri bæjarstjórn er í sjálfsvald sett að hækka laun starfsmanna sinni. Málið snýst aðeins um forgangsröðun fjármuna – ekkert annað.

Kjósum réttlæti og lágmarks mannréttindi - Kjósum Vinstri græn.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×