Enski boltinn

Chelsea búið að kaupa Costa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur Chelsea samið við Atletico Madrid um kaupverð á sóknarmanninum Diego Costa.

Costa sló í gegn með Atletico í vetur en kaupverðið er samkvæmt frétt Sky Sports 32 milljónir punda - um sex milljarðar króna.

Aðeins Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa skorað fleiri mörk í spænsku úrvalsdeildinni í vetur en Costa hefur skorað 27 mörk í 34 leikjum. Hann verður væntanlega í lykilhlutverki þegar Atletico mætir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þann 24. maí.

Costa er 25 ára gamall Brasilíumaður sem kom til Atletico frá Valladolid árið 2010. Hann fékk spænskan ríkisborgararétt síðastliðið sumar og valdi þá að spila fyrir spænska landsliðið, þó svo að hann hafi verið valinn í brasilíska landsliðshópinn fyrr um árið.

Hann hefur lengi verið orðaður við Chelsea undanfarnar vikur og mánuði en Jose Mourinho, stjóri liðsins, hefur verið á höttunum eftir markaskorara til að leysa framherjavandræði liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×