Jamie Benn sá til þess að Kanada vann sigur á erkifjendum sínum frá Bandaríkjunum í undanúrslitum íshokkíkeppni karla á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag.
Benn skoraði eina markið í spennuþrungnum leik en sterkur varnarleikur Kanada átti stóran þátt í sigrinum í dag. Carey Price hélt marki Kanada hreinu en hann fékk alls 31 skot á sig.
Kanada mætir Svíþjóð í úrslitaleiknum á sunnudag en á morgun eigast við Finnland og Bandaríkin í bronsleiknum.
Kanada vann í gær sigur á Bandaríkjunum í úrslitaleiknum í íshokkí kvenna. Fyrir þessa leiki höfðu Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, veðjað um úrslit leikjanna og lagt kassa af bjór undir hvorn þeirra.
Harper setti það sem skilyrði að bjórinn væri kanadískur.
